143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

þjóðhagslegur ávinningur af hvalveiðum.

[15:20]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki auðvelt að reikna reikningsdæmi eins og hv. þingmaður stillti því upp. (Gripið fram í: Þetta er ekkert …) Hins vegar eru í þessu mjög margir þættir sem eru mikils virði þótt ekki sé hægt að setja ákveðna tölu á þá, t.d. það að verja rétt Íslands til að nýta náttúruauðlindir sínar. Sá réttur er gríðarlega mikils virði fyrir okkur þó að ekki sé hægt að setja á hann ákveðna tölu.

Það er líka einhvers virði, hlýtur að vera, að menn standi á prinsippum sínum og láti ekki mestu hvalveiðiþjóð heims segja sér að við megum ekki veiða hval. Á meðan Bandaríkjamenn halda áfram sínum hvalveiðum ætla þeir að skikka Íslendinga til að hætta að veiða hval. Það er ekki hægt að láta undan slíkri ófyrirleitni þó að það sé kannski erfitt að setja nákvæma krónutölu á það.