143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

lokun fiskvinnslu á þremur stöðum á landinu.

[15:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra hafi áhyggjur og ég skil það. En hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera? Ég óttast ansi mikið að hér séu á ferðinni atburðir af því tagi að það muni þurfa virkan atbeina stjórnvalda til eigi að vera hægt að koma í veg fyrir að þetta gangi eftir, a.m.k. að verulegu leyti, og þar með tilheyrandi afleiðingum fyrir byggðarlögin. (Gripið fram í: Já.) Þetta eru ósköp einfaldlega svo stórir atburðir þar sem 40–60 manna vinnustaðir í 300–500 manna plássum eins og í tilviki Þingeyrar og Djúpavogs hverfa á einu bretti. Þetta er stór hluti atvinnulífsins á viðkomandi stöðum og veiðiheimildirnar sem þarna fylgja.

Má ég þá minna hæstv. forsætisráðherra á að þetta gerist í óbreyttu gamla kvótakerfinu. Þetta gerist þar en ekki í einhverju nýju kerfi sem hefði betur komist á og aukið byggðafestuna og aukið svigrúm stjórnvalda til að mæta aðstæðum af þessu tagi ef stjórnvöld sjálf hefðu haft meira af veiðiheimildum (Forseti hringir.) handa á milli en þau gera í núverandi kerfi.