143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að þeir sem vilja nýta þetta úrræði þurfa ekki fyrst að hafa staðið að fullu í skilum með mánaðarlega afborgun. Ef við gefum okkur að viðkomandi sé í erfiðleikum með að standa í skilum með sína mánaðarlegu afborgun er hérna kominn hvati gegnum skattkerfið til þess að fá stuðning með að standa í skilum með þá mánaðarlegu afborgun. Það er beinlínis hvati til að hefja töku séreignarsparnaðar í gegnum þessa leið vegna þess að skattfrelsið mun létta viðkomandi að standa í skilum miðað við það sem er að óbreyttu.

Það er rétt með leigjendur enda er úrræðið ekki hugsað sérstaklega fyrir þá sem ekki skulda verðtryggð lán vegna kaupa á fasteign til að búa í. Við höfum rætt þetta nokkuð áður í þinginu.

Varðandi sveitarfélögin finnst mér mikilvægt að skoða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga í stærra samhenginu, í þessu efni mætti alveg velta fyrir sér (Forseti hringir.) hversu háar tekjur sveitarfélögin hafa fengið vegna fyrirframtöku (Forseti hringir.) séreignarsparnaðar á undanförnum árum. (Forseti hringir.) Það mun losa 10 milljarða sem (Forseti hringir.) sveitarfélögin hafa fengið fyrr og (Forseti hringir.) bankaskatturinn mun líka skila sveitarfélögunum auknum tekjum, (Forseti hringir.) um 500 milljónum á ári, (Forseti hringir.) þannig að það er margt sem hefur stutt við fjárhag sveitarfélaganna af (Forseti hringir.) þeim úrræðum sem hafa verið notuð.