143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er réttlæti á haus. Þeir tekjuhærri fá meiri skattafslátt en hinir tekjulægri. Velferðarsamfélagið snýst um hið gagnstæða, að þeir sem hafa lægri tekjurnar fái meiri skattafslátt en hinir sem hafa hærri tekjur. Alþingismaður með 700 þús. kr. á mánuði getur fullnýtt þessa heimild. Hann fær út úr því 600 þús. kr. skattafslátt.

Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, meðaltekjur í landinu eru um 400 þús. kr. Einstætt foreldri eða einhleypingur sem hefur slíkar tekjur fær aðeins 300 þús. kr. skattafslátt samkvæmt þessu frumvarpi. Alþingismaðurinn með miklu hærra kaup fær helmingi meiri skattafslátt í krónum talið en manneskja með miklu lægra kaup. Þetta er náttúrlega, hæstv. ráðherra, alveg fáránlega ósanngjarnt.

Ég spyr hvort ekki sé sanngjarnara að útfæra málið með þeim hætti að hvert og eitt heimili eigi rétt til ákveðinnar krónutölu í skattafslætti. Síðan getur það tekið heimilin eitt ár að leggja fyrir sparnað sem mætir þeim skattafslætti eða þrjú ár eða fimm ár eða sjö ár eftir því hversu miklar tekjur það hefur og svigrúm, en þannig að allir fái að minnsta kosti sömu krónutölu af skattafslætti, en ekki að hinir tekjuhærri fái fleiri krónur. Í raun og veru ættu hinir tekjulægri að vera með meiri skattafslátt en við hin sem erum með hærri tekjur.

Er ekki að lágmarki sanngirniskrafa að allir fái sömu krónutölu, bæði lágtekjufólkið og hinir sem eru með hærri tekjurnar, en ekki að réttlætinu sé snúið á haus?