143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hv. þingmaður kemur hingað upp og svarar alls ekki spurningunni. Það er kannski vegna þess að ég get á ekki komið á eftir, alla vega ekki strax, ekki fyrr en ég kemst í ræðustól til að svara. Spurningin var þessi: Röksemdafærsla hv. þingmanns er sú að ósanngjarnt sé að skattafslátturinn sé hærri af hærri upphæðum. Það sama á við um fjármagnstekjuskattinn. Ef hv. þingmaður er þeirrar skoðunar hlýtur hann að vera þess fylgjandi að settur sé fjármagnstekjuskattur á lífeyrissparnað og séreignarlífeyrissparnað. Það getur ekki annað verið, nema það geti verið að hv. þingmaður sé ekki samkvæmur sjálfum sér. En ég held að við getum útilokað það. Síðan hlýtur hv. þingmaður að koma og lýsa því yfir að hann sé fylgjandi því að tekinn sé sérstakur fjármagnstekjuskattur á séreignarlífeyrissparnað og sparnað í lífeyrissjóðum út af því hversu ósanngjarnt kerfið er núna.