143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ágætisræðu en það sló mig örlítið, verð ég að viðurkenna, hvað hann var neikvæður í garð aðgerðanna í ræðu sinni og fann flestu til foráttu og mögulega komst hann ekki yfir allt sem hann hefði viljað komast yfir í ræðunni.

Það sem ég horfi á við þessar aðgerðir er samspil aðgerðanna, skuldaleiðréttingar og séreignarsparnaðarleiðar. Mig langar að fá að draga fram og spyrja hv. þingmann hvort ráðstöfunargetan sem eykst af skuldaleiðréttingunni muni ekki nýtast meðal annars í séreignarsparnaðarleiðina, af því að hann hafði vissulega áhyggjur af því að einhverjir hefðu ekki ráðstöfunarfé þótt þeir hefðu hvatann til að leggja fyrir.