143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um að þessar leiðir vegi eitthvað hvor upp á móti annarri. Því meira sem ég skoða þá tilteknu leið sem er til umræðu sé ég neikvæðar hliðar á henni sem eru nákvæmlega sömu neikvæðu hliðarnar og á skuldaleiðréttingunni miklu. Báðir þættirnir nýtast þeim best sem mest hafa milli handanna. Þeim mun hærri sem tekjurnar eru þeim mun meiri verður ávinningurinn, jafnt hlutfallslegur og í krónutölu fyrir þá sem hljóta. Og lágtekjufólkið getur auðvitað lítið nýtt sér þessa tilteknu leið vegna þess að það hefur minna milli handanna í ráðstöfunarfé og það mun fá mjög lítið af skuldalækkunum. Þær fara að yfirgnæfandi hluta til, og allt of ríkum hluta, til vel stæðs fólks og jafnvel fólks sem ekki varð fyrir neinum forsendubresti. (Forseti hringir.) Það er grundvallarvandamálið sem ég sé við skuldaleiðréttinguna sem slíka.