143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi fyrri hluta andsvarsins. Ég sagði aldrei að þetta væri sama leiðin, en mér finnst það vera svona í framhaldi. Fólki hefur gefist kostur á því að taka út það sem það á í séreignarlífeyrissparnaði, vissulega með skatti, og hefur vel getað varið því inn á höfuðstól lána sinna, þannig að þetta er svona alveg í framhaldi af því. Mér finnst þetta þess vegna ekki vera spánnýtt úrræði þó að hér komi skattafsláttur að auki og lagt til að inngreiðslurnar leggist beint á húsnæðisreikning.

Ég hef sagt að ég sé jákvæður gagnvart þessu þó að ég sjái umfangsmikla galla, mjög umfangsmikla, vegna þess að þetta er valkostur. Það getur vel verið að einhverjir sjái kost í því að greiða niður lánin sín. Mér finnst það reyndar verulegur galli að fyrst greiðist upp biðreikningurinn, sem átti að afskrifast hvort sem er, mér finnst það verulegur galli en ég treysti því að við munum ræða það í efnahags- og viðskiptanefnd. En ég var líka að hvetja til langtímahugsunar. Vel getur verið að einhverjir ætli sér þegar þeir komast á eftirlaunaaldur að eiga þá skuldlaust húsnæði, en húsnæði er svolítið erfitt sparnaðarform, jú, þú getur búið í því en þú verður þá líka væntanlega að selja það til að uppskera lífeyrissparnaðinn til framfærslu ef þú ætlar að verja honum í húsnæði. Þú verður að hafa lífeyri á lífeyrisaldri, þú er hættur að vinna. Sumir ætla eflaust að framfleyta sér með því að selja skuldlaust húsnæði þegar þeir verða gamlir og það getur verið skynsamlegt fyrir þá að reyna að greiða niður skuldirnar áður en þeir fara á lífeyri. En aðrir ætla sér kannski ekki að gera það og eru ekki í þeirri stöðu. Ég mundi hvetja hvern og einn til að vega þetta og meta.