143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er líka þetta með forsendubrestinn. Nú las ég frumvörpin en mér skilst að forsendubrestur sé einhvern veginn dottinn út núna. Hann er hættur að vera vandamál sem er mjög slæmt. Samkvæmt þessu, að meðaltali, þá er álagið af hruninu mjög mismunandi eftir aldurshópum og eftir því hvenær fólk keypti fyrstu íbúð. Sumir eru í þeim vanda staddir að það er eðlilegt að við nýtum opinbera fjármuni til að koma til móts við þá en aðrir eru í það góðri stöðu að mjög góðan rökstuðning þarf fyrir því, og sýna þarf fram á það með góðum greiningum, að forsvaranlegt sé að aðstoða þá.

Þá vil ég líka minna á að húsnæðislán eru ekki einu verðtryggðu lán heimilanna. Fjöldi heimila er með verðtryggð námslán en hæstv. ríkisstjórn telur alls ekki að þar hafi orðið nokkur forsendubrestur. Það virðist ekki varða þá neinu þó að fólk hafi valið að fjárfesta kannski í menntun erlendis og dregið það að fjárfesta í húsnæði eða jafnvel fjárfest í minna húsnæði. Það fólk varð ekki fyrir forsendubresti að mati ríkisstjórnarinnar sem er í þokkabót að læsa landinu þannig að hér þrífist sem fæst sem er skemmtilegt og minnir á nútímann.