143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar. Mig langar að spyrja hana aðeins nánar vegna þess að ég veit að hún hefur mikinn áhuga á húsnæðismálum í víðu samhengi. Ég tel að hún hafi talsvert mikla þekkingu á húsnæðismálum og hafi kynnt sér ýmsar leiðir sem eru færar í þeim efnum. Ég hef einnig þó nokkra trú á því að hún hugsi um heildina og þar með almannahag.

Þess vegna langar mig að inna hv. þingmann eftir því hvort hún telji að frumvarpið sem við erum að ræða muni gagnast lág- og millitekjuhópum, sem eiga erfitt með að ná endum saman í dag, til að koma húsnæðismálum sínum í lag hvort sem er akkúrat núna eða á næstu árum, t.d. næstu þremur árum sem séreignarlífeyrissparnaðargreiðslan á að taka til. Telur þingmaðurinn að þetta muni koma þeim að gagni?