143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að geta aðstoðað fólk við að lækka skuldir sínar, en því var lofað öðru fyrir kosningar en að það ætti að gera það aðallega á eigin reikning og restin yrði skatttekjur úr ríkissjóði og hluti af þeim reikningi lenti á börnunum okkar. Það er útfærslan. Það hlýtur að mega nefna það hér í ræðustólnum án þess að hæstv. fjármálaráðherra kippi sér við.

Svo komum við að því að það eru margar leiðir til þess að aðstoða fólk sem er með þunga greiðslubyrði af húsnæðisskuldum. Ég nefndi tæki ef fólk á í erfiðleikum með að kljúfa húsnæðiskostnaðinn, hvort sem það er að rembast við að eignast íbúð eða er ofurselt leigumarkaðnum eins og hann nú er. Það heita vaxtabætur og húsaleigubætur.

Er það endilega sjálfgefið að það sé gáfulegasta aðferðin, sanngjarnasta aðferðin, réttasta aðferðin í þessum efnum að hafa dregið vaxtabætur niður í 8,3 milljarða kr. sem ég held að fari í almennar vaxtabætur á árinu 2014 á verðlagi þessa árs borið saman við yfir 20 milljarða árið 2011? Auðvitað voru skuldirnar meiri þá, það hefur náðst verulegur árangur í að lækka þær, sem sést meðal annars á því að minni fjárhæðir ganga til vaxtabóta í óbreyttu kerfi.

Ég skil alveg Sjálfstæðisflokkinn að berjast hér fyrir þessum aðferðum sem eru auðvitað skilgetið afkvæmi þeirrar stefnu hans að sjá aldrei neitt nema séreignarstefnu í húsnæðismálum. Auðvitað er þá verið að halda því að fólki að kosturinn við séreignarstefnuna sé sá að það sé svo gott að mynda eign í húsnæði, það verði allir ríkir svona smátt og smátt á því að eiga sitt eigið húsnæði, sem hefur ekki orðið reyndin á Íslandi. Ætli séreignarstefnan hafi reynst þjóðinni sérstök gæfa í þeim óstöðugleika efnahagsmála sem við höfum búið hér við? Hvað eru kollsteypurnar orðnar margar sem við munum sem erum nú á miðjum aldri? Eigum við að segja þrjár eða fjórar? (Gripið fram í: Þrjár.)