143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur farið ágætlega yfir þetta mál í þó nokkrum ræðum hér í þinginu. Það er eitt atriði sem ég sakna þess að heyra hv. þingmann ekki ræða um. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að láta svokallaða greiðslujöfnunarreikninga ganga fyrir í þessum aðgerðum. Greiðslujöfnunarreikningar eru sá hluti lánanna hjá þeim sem veita húsnæðislán þar sem fjármálastofnanirnar taka á sig áhættuna, ekki lántakinn. Það þýðir að ef menn eru núna, þessi ríkisstjórn, að fara að byrja á að þurrka upp greiðslujöfnunarreikningana þá er verið að byrja á þeim hluta lánanna þar sem fjármálastofnanirnar bera áhættuna en láta hitt mæta afgangi.

Ég er ekki viss um að menn átti sig á áhrifum þeirrar staðreyndar. Þetta mun þýða að þó nokkrir milljarðar — maður gæti jafnvel áætlað allt að 20 milljarðar — gætu farið bara beint í að þurrka út greiðlsujöfnunarreikningana. Það þýðir að lántakendur finna ekki fyrir lægri greiðslubyrði vegna þess að þeir eru ekki að greiða af þessum hluta lánanna í dag, sem eru greiðslujöfnunarhlutinn.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi velt þessu fyrir sér og hvort hún hafi velt fyrir sér áhrifunum af því að greiðslujöfnunarreikningarnir verði látnir ganga fyrir. Það mun örugglega þýða að miklu fleiri en menn gera sér grein fyrir í dag muni ekki finna neitt fyrir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, ef þetta verður ofan á.