143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og tek það á mig að hafa ekki verið alveg nógu skýr. Ég fór kannski úr einu yfir í annað.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni hvað varðar forsendubrestinn og þær ólíku kringumstæður sem má kalla forsendubrest. En það sem ég var að velta fyrir mér er hvort til lengri tíma sé skynsamlegt að í stað þess að fólk leggi peninga í lífeyrissjóð leggi það peningana frekar inn á húsnæðislán eða í sjóð sem væri til þess að fólk gæti keypt íbúð, frekar en fara lífeyrissjóðsleiðina.

Ástæðan fyrir því að ég spyr er að lífeyrissjóðsgreiðslur koma jafnan einhverjum áratugum eftir að lagt er í lífeyrissjóðinn á meðan eignin verður strax til ef maður leggur peninginn inn á húsnæðislánið sitt eða inn á reikning sem er til að fjármagna húsnæðiskaup. Ég velti þessu fyrir mér í samhengi við langtímasparnað, hvað væri skynsamlegt fyrir fólk að gera og í kjölfarið hvernig væri skynsamlegt fyrir okkur að haga þeim málum í framtíðinni.