143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi inna hv. þingmann eftir hans mati á heildaráhrifunum af þessum tveimur þingmálum sem eru hér á dagskrá, nr. 2 og 3, skuldaleiðréttingunni sem Framsóknarflokkurinn kallar svo og síðan þessu máli.

Seðlabankinn hefur metið verðbólguáhrifin um 1%. Mér sýnist það leiða til hækkunar á verðtryggðum skuldum upp á nærfellt 13 milljarða. Það leiðir til uppsafnaðrar stýrivaxtahækkunar á næsta fimm ára tímabili upp á 3,3%, 0,8% á ári seinni þrjú árin á tímabilinu. Það eru einhverjir tugir milljarða í aukinn vaxtakostnað fyrir heimilin og sömuleiðis sennilega töluverður aukinn kostnaður fyrir atvinnulífið. 1% hækkun á verðlagi leiðir væntanlega til 10 milljarða útgjaldaauka fyrir heimilin í daglega neyslu því að einkaneyslan á ári er 1 þús. milljarðar eða þar um bil og 1% af því er þar af leiðandi 10 milljarða hækkun. Það má auðvitað gera ráð fyrir því að kaupið elti þá tölu eftir einhvern tíma. Þegar í þessari greiningu Seðlabankans virðist mér vera kominn margra tuga milljarða kostnaður sem kemur á móti þessari 72 milljarða skuldaleiðréttingu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ég hafi skilið það rétt hjá honum hér fyrr í vikunni að hann telji að þessi áhrif, þetta mat Seðlabankans, sé of varfærið, að það megi vænta þess að verðbólguáhrifin af þessum aðgerðum í heild sinni verði meiri en 1% og áhrifin á stýrivextina næstu árin verði þá væntanlega meiri en 0,8% hækkun á ári.