143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir góða ræðu eins og ávallt.

Til að ítreka það erum við að ræða frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Mig langar að tjá mig um það svona rétt áður en ég kem að spurningunum. Ég er sammála hv. þingmanni um það að allar sparnaðarhvetjandi aðgerðir og skattalegir hvatar í hagkerfinu, hvort sem það er til að efla atvinnulífið eða efla hag heimilanna, eru af hinu góða. Þar erum við svo sannarlega sammála, ég og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason. Við erum auðvitað að ræða grunnþörf einstaklingsins og fjölskyldna, þ.e. að hafa þak yfir höfuðið og ofan í sig og á, og það alla ævina. Vissulega er hægt að finna galla á öllum sköpuðum hlutum, en við erum hér að vinna okkur áfram vil ég segja, því að ýmislegt var nú gert á síðasta kjörtímabili og gerir okkur kleift að gera betur.

En svo ég komi að spurningunum vil ég spyrja hv. þingmann hvort skuldsetning heimila sé ekki, ef við tökum verga landsframleiðslu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, of há enn þá. Og í framhaldi af því, af tveimur kostum illum hvort er til lengri tíma litið — þegar við erum að vinna okkur út úr þeim aðstæðum sem við höfum verið í, kreppu og erum að koma okkur upp úr henni — skynsamlegra að vinna niður skuldahlið heimilanna eða ríkissjóðs?