143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Með því að séreignarsparnaðurinn verður skattfrjáls fá menn, samanborið við það að hann yrði skattaður einhvern tímann í framtíðinni, því sem líkja má við 40% ávöxtun strax við úttektina og ráðstöfun inn á lánið. (SJS: Og ríki og sveitarfélög tapa því með sama móti.) Ríki og sveitarfélög tapa því á móti er sagt, gott og vel, en peningarnir gufa ekki upp. Það eina sem gerist er að í stað þess að ríki og sveitarfélög fái tekjurnar til sín er þeim ráðstafað til heimilanna í landinu sem mynda þetta samfélag. Þetta eru ekki peningar sem gufa upp og fara í eitthvert óþarfa mál heldur verða þeir eftir hjá heimilunum sem eru í mikilli þörf.

Það er rétt að greinilegt er á tölunum að tekjuminnstu heimilin eru ekki eins líkleg og þau sem eru tekjuhærri til að nýta sér þetta úrræði. En gleymum því þá ekki að þrjú af hverjum fjórum heimilum, og rúmlega það, sem skulda í fasteign leggja nú þegar, eða voru að gera það á árinu 2012, fyrir í séreignarsparnað. Yfir þrjú af hverjum fjórum, það er verulegur meiri hluti allra heimila. Þá er eftir sá hópur sem telur innan við ¼ og ég tel að það séu alveg gild rök í málinu að úrræðin munu ekki með sama hætti nýtast þeim sem fram til þessa hafa ekki séð svigrúm til þess að vera í séreignarsparnaði, en með skattafslættinum sem veitir 40% ávöxtun á framlagið, eða því sem jafna má við um 40% ávöxtun, þá tel ég að það sé augljós hvati til þess.

Gleymum því síðan ekki að þetta úrræði ásamt með lækkun höfuðstóls, sem er í öðru þingmáli, mun fyrir dæmigerðar fjölskyldur geta aukið ráðstöfunartekjur á ári (Forseti hringir.) um 200–300 þús. kr. Það er fyrir margar fjölskyldur eins og að fá 13. mánuðinn í laun.