143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um ESB.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Það er ekki þannig að öll mál séu leyst með því að hafa krónuna eða að öll mál verði leyst með því að taka upp evruna eða einhvern annan gjaldmiðli. Það verður að vera hægt að taka þessa umræðu af einhverri yfirvegun og vega og meta kostina og gallana við hvora leið fyrir sig. Það er nákvæmlega það sem ég hef verið að vekja athygli á, m.a. í þeirri grein sem hv. þingmanni þykir gaman að lesa upp úr og gerir reglulega hér í þinginu. Ég er núna að benda á það, og ég benti líka á það um helgina, að atvinnuleysi á Íslandi var lægra í febrúar en í hverju einasta Evrópusambandsríki. Ég hef líka vakið athygli á því að þau ríki sem hafa ákveðið að taka þátt í sameiginlegu myntinni en eru með háar ríkisskuldir eiga enga aðra leið en þá að segja upp fólki í þúsundatali. Hv. þingmaður hljóp frá því að svara þeirri spurningu hvers vegna hann mælti ekki fyrir þeirri leið fyrst hann leggur svona mikla áherslu á fasta gengið. (ÁPÁ: Ég skal …) Honum er þá í raun sama um hvað gerist á vinnumarkaði.

En við á Íslandi höfum valið þá leið í gegnum tíðina að okkur hefur ekki staðið það til boða undanfarin ár að taka upp aðra (Forseti hringir.) mynt. Verið hefur umræða um það í meira en hálfa öld á Íslandi (ÁPÁ: … taka umræðuna …) hvort það væri skynsamlegt. Við höfum valið að verja rétt manna (Forseti hringir.) til að vinna og framfleyta sjálfum sér.