143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

gjaldmiðilsstefna.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Forsendubresturinn varð hjá heimilunum með sínar verðtryggðu skuldir. Ég hef aldrei sagt að það hafi komið atvinnulífinu til góða að gengið hafi fallið svona hrikalega. Ég hef einfaldlega vakið athygli á því að það var nauðsynleg og óumflýjanleg aðlögun að breyttum veruleika sem átti sér stað. Það sem gerðist í kjölfarið var það að samkeppnisstaða útflutningsgreinanna styrktist mjög verulega.

Hvernig á maður að ræða um tímabilið sem hv. þingmaður fór yfir að hafi gilt fram til þess að gengið var sett á flot? Hvaða einkunn vil ég gefa þessu tímabili? Jú, ég tel að það sé athyglisvert að lengst af á þeim tíma hafi verðbólgan verið innan þolanlegra marka og vextir voru sömuleiðis nokkuð lágir, a.m.k. í sögulegu samhengi. Krónan var á þessum tíma eins konar körfumynt sem tók mið af gengi ýmissa gjaldmiðla sem aftur endurspegluðu utanríkisviðskipti okkar. En það sem skipti mestu varðandi fastgengisstefnuna var að við sprungum á limminu. Við sprungum á getunni til að halda genginu stöðugu með gjaldeyrisöflun. Við gátum það ekki lengur. Það er áhætta sem menn taka ef þeir ætla að byggja fastgengisstefnu og hin undirliggjandi utanríkisviðskipti styðja ekki við það gengi sem menn hafa fastsett sér að halda. Þá þarf að fara að taka lán í erlendum myntum til að halda genginu við og á endanum gátum við ekki haldið því áfram.

Hvernig samræmist það yfirvegaðri Evrópuumræðu að leggja fram og styðja tillögu um að draga aðildarumsóknina til baka? Í fyrsta lagi samrýmist það mjög vel niðurstöðunum í síðustu kosningum, meirihlutavilja Alþingis. Mér finnst það kannski aðalatriðið. Svo er auðvitað hitt að við erum ekki að byrja Evrópuumræðuna, hún hefur staðið lengur en í eitt kjörtímabil og lengur en tvö. (Forseti hringir.) Hún stendur enn yfir.