143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

gjaldmiðilsstefna.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það að við erum ekki í viðræðum við Evrópusambandið í augnablikinu endurspeglar einfaldlega pólitísku stöðuna í landinu, niðurstöðu síðustu þingkosninga. Það er ekki meirihlutavilji fyrir því í þinginu að ganga í Evrópusambandið. Menn verða að geta horfst í augu við það og einnig hitt að það er ekkert sem útilokar menn frá því að sækjast eftir aðild einhvern tímann í framtíðinni sama hvernig þetta atvikast núna. Auðvitað er þingsályktunartillagan enn til meðferðar í þingnefnd.

Varðandi þá miklu kosti sem menn leggja áherslu á hér í umræðunni um að taka upp mynt þessa myntsvæðis finnst mér menn skauta býsna léttilega frá þeim djúpa vanda sem evrusvæðið er í í dag og vanda þeirra ríkja sem tóku upp hina sameiginlegu mynt og eru að glíma við hátt atvinnuleysi eins og á til dæmis við á Spáni þar sem annar hver ungur Spánverji er atvinnulaus. (Gripið fram í: Þannig verður þetta á Íslandi.) Nú hlæja menn í salnum og segja: Auðvitað verður það þá þannig líka á Íslandi. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) En þetta er háalvarlegt mál og aðalatriði er að myntin sem menn eru að nota verður að (Forseti hringir.) endurspegla það sem er að gerast í hagkerfinu. Ef menn láta það ekki gerast eru menn að kalla yfir sig alls konar vandamál á borð við þau sem mörg evruríkin eru með í dag.