143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aðferðir við hvalveiðar.

[15:21]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegur forseti. Í dag birtist frétt í Fréttablaðinu um skoðanakönnun Capacent Gallup sem sýnir að nærri 2/3 Íslendinga telja mikilvægt að hvalveiðar séu framkvæmdar á mannúðlegan hátt. Í nýlegu svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við skriflegri fyrirspurn hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar kemur fram að engar upplýsingar eru til um með hvaða hætti hvalveiðar eru stundaðar við Íslandsstrendur með tilliti til dýravelferðar. Íslenskur almenningur hefur því í raun engar upplýsingar til að mynda sér skoðun á og taka afstöðu til hvort veiðarnar séu framkvæmdar á mannúðlegan hátt eða ekki.

Í svari hæstv. ráðherra kom þó fram að til stæði að fá hingað til lands norska aðila til að taka út hvalveiðiaðferðir og mæla dauðatíma hvala við áætlaðar hvalveiðar núna í sumar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er komið á hreint að þessir aðilar komi hingað til lands? Hvenær munu þeir þá koma?