143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aðferðir við hvalveiðar.

[15:24]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það má eflaust deila um hversu mannúðlegt dráp á hvölum er. Um er að ræða mjög flóknar lífverur, þ.e. spendýr með flókið taugakerfi sem finna sársauka og hafa í raun tilfinningar á líkum skala og við. Þetta eru alla vega mjög flóknar lífverur taugalífeðlisfræðilega séð sem kveljast vafalítið nokkuð. Miðað við þær aðferðir sem ég hef séð og þar sem ég vann nú í sláturhúsi Kaupfélagsins í gamla daga þá er það nú ekki sambærilegt að slátra nauti eða svíni eða hval. Þetta eru nokkuð aðrar aðferðir og má búast við nokkuð meiri sársauka.

Ég vil þá spyrja í framhaldinu: Verða þessar upplýsingar aðilanna birtar opinberlega svo almenningur geti kynnt sér þær og í framhaldinu lagt mat á hvort aðferðirnar séu mannúðlegar eða ekki? Telur ráðherra kannski eðlilegt að fjölmiðlum verði boðið í þessar ferðir þar sem úttektaraðilar verða til staðar til að upplýsa almenning betur um hvernig hvalveiðarnar fara fram?