143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

ofnotkun og förgun umbúða.

[15:27]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir tæpum þremur vikum síðan var stofnuð síða á samskiptamiðlinum Facebook sem ber heitið Bylting gegn umbúðum. Á tæpum þremur vikum eru meðlimir hennar orðnir yfir 8.400 talsins og fer fjölgandi. Íbúum blöskrar orðið þessar gríðarlegu plastumbúðir um allar þær nauðsynjavörur sem fást í verslunum landsins. Lífrænu íslensku grænmeti er margpakkað í plast, tveimur stykkjum í einu, kjötvara fæst ekki lengur nema í frauðplastspökkum umvafin plasti og núna eru það páskaeggin, en þeim er auðvitað pakkað í pappa og plast og allt sælgæti inni í þeim er sett í litla plastpoka, jafnvel málshættirnir líka.

Talið er að það umbúðaplast sem er í umferð á höfuðborgarsvæðinu sé um 7 þúsund tonn, sem er gríðarlegt magn í rúmmáli sé litið til þess hversu létt plast er, en plast er í raun bara 80% loft. Á Íslandi er því miður ekki enn þá til raunhæf leið til að endurvinna staðbundið allt þetta plast og ekki má gleyma að plastið er ekki heldur bara plast. Til voru um átta tegundir af plasti í almennri umferð síðast þegar ég vissi.

Ég vil því beina fyrirspurn minni til hæstv. umhverfisráðherra hvort hann hafi ekki sömu áhyggjur og ég og a.m.k. 8.500 íbúar þessa lands af þessari þróun, þessu umbúðabrjálæði, eins og ég vil kalla það. Hvernig hyggst hæstv. umhverfisráðherra sporna gegn þessari þróun? Er hann sammála mér um að lög og reglur, t.d. um Úrvinnslusjóð þjóni ekki tilgangi sínum, a.m.k. ekki hvað varðar endurvinnslu plasts?

Einnig vil ég spyrja ráðherra spurningar um svokallaða mengunarbótareglu þar sem kveðið er á um að sá sem mengar borgi. Í þessu tilfelli þar sem um er að ræða flestar nauðsynjavörur þá er það almenningur sem ber kostnaðinn með sorphirðugjöldunum sínum og förgun. Er þá ekki tímabært að snúa dæminu við og láta framleiðendur, dreifingaraðila og söluaðila bera þann kostnað?