143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

ofnotkun og förgun umbúða.

[15:29]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög áhugaverða fyrirspurn og tek undir orð hennar að fullu að það er mjög alvarlegt hvernig þróunin hefur orðið í neyslusamfélagi okkar, ekki bara hér á landi heldur alls staðar um hinn vestræna heim hið minnsta og jafnvel víðar, að menn kappkosta að pakka öllum mögulegum vörum í sífellt smærri einingar og margfaldar umbúðir sem menn bera síðan með sér heim. Og hvað er gert við þær þar? Jú, þær enda í ruslinu. Og hver á að borga það? Það er þá oftast á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags samkvæmt þeim lögum og reglum sem við höfum sett að koma ruslinu einhvern veginn fyrir. Sú leið sem sveitarfélögin hafa er að setja gjald á viðkomandi ruslasöfnun og losun, förgun, til þess að standa undir þessari sívaxandi kröfu og umfangi, skulum við segja.

Þetta endar auðvitað alltaf hjá neytandanum og þess vegna er það í sjálfu sér jákvætt framtak hjá einstaklingum sem segja: Hingað og ekki lengra, ég ætla að hætta að bera ruslið með mér heim. Ég held að það væri kannski besta leiðin til þess að fá framleiðendur og seljendur til þess að reyna að fara með þessar vörur á skynsamlegri hátt en að pakka þeim sífellt inn.

Við getum því miður allt of sjaldan keypt vörurnar beint frá býli þar sem við getum fengið vörurnar beint án þess að þær séu í margföldum umbúðum. Það má nefna t.d. að á Suðurlandi öllu er aðeins ein verslun með kjötborð, annars þarf maður að kaupa allt sitt kjöt í einhverjum umbúðum sem búið er að flytja langar leiðir. Plast er stórkostleg umhverfisvá. Í sunnanverðu Kyrrahafi er risastór plasteyja, ég man ekki hversu stór hún er, hún er alveg ævintýralega stór, sem flýtur þar um og safnar að sér plasti, þannig að þetta er sannarlega verkefni sem (Forseti hringir.) þarft er að skoða.

Ég get ekki svarað öllum spurningum (Forseti hringir.) hv. þingmanns að þessu sinni, ég skal reyna að gera það í seinna andsvari mínu.