143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

ofnotkun og förgun umbúða.

[15:31]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Já, það er mjög jákvætt að heyra að hæstv. umhverfisráðherra hafi sömu áhyggjur og ég og hann finnur greinilega fyrir þessum auknu umbúðum í eigin heimilisrekstri, eins og ég held að allir hér inni geri. Hæstv. ráðherra talaði um svokallaðar plasteyjur, en þær eru einnig farnar að myndast í Atlantshafi og Indlandshafi, sem hlýtur náttúrlega að vekja okkur Íslendinga til umhugsunar þar sem við erum jú á eyju í Atlantshafi og stólum á sjávarútveginn síðast en ekki síst. Það getur því haft mjög „drastískar“ afleiðingar fyrir okkur sem fiskvinnsluþjóð.

Einnig vil ég fá að koma því að að ég hef miklar áhyggjur af því að þessar miklu umbúðir hljóta að skila sér út í verðlag vörunnar og almenningur borgar það með sorphirðugjöldum sínum. Ég vil einnig fá að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að tími sé kominn til að endurreisa græna fjárfestingarsjóðinn sem var hér til umræðu á síðasta kjörtímabili, en markmið hans var að efla nýsköpun á Íslandi í endurvinnslu á plasti.