143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aflaheimildir fiskvinnslunnar Vísis.

[15:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. sjávarútvegsráðherra um málefni byggðanna á Þingeyri og Djúpavogi og á Húsavík. Við þekkjum þær fréttir að það er áformað að loka fiskvinnslu á þessum stöðum þar sem Vísir í Grindavík hefur verið með fiskvinnslu í fjölda ára og útgerð. Mig langar að vita hvort þessi mál hafi verið tekin upp hjá ríkisstjórninni, staða þessara byggðarlaga í kjölfar þessara frétta og hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til einhverra aðgerða, einhverra mótvægisaðgerða vegna þeirrar stöðu sem þessar byggðir standa frammi fyrir þar sem eins og á Þingeyri og á Djúpavogi er þetta burðarásinn í atvinnulífi þessara staða.

Mig langar líka að heyra frá hæstv. ráðherra hvort skoðaðir verði þeir samningar sem voru gerðir á milli Vísis og Byggðastofnunar og hvort skoðað verði hvað Vísir hefur fengið mikinn byggðakvóta frá upphafi á Þingeyri og á Djúpavogi og Húsavík frá því hann fékk fyrsta byggðakvótann með samningum og hvað það er há upphæð á fullu kvótaleiguverði sem þeir hafa fengið án endurgjalds öll þessi ár.

Einnig væri fróðlegt að vita hvort Vísir hafi leigt frá sér aflaheimildir á þessu tímabili meðan hann fékk endurgjaldslausar aflaheimildir í formi byggðakvóta.

Eins og við vitum er staða þeirra byggðarlaga sem standa frammi fyrir þessu að stærsti atvinnurekandinn á staðnum ákveður að hætta rekstri og fara í burt með sínar aflaheimildir. Þetta er grafalvarleg staða sem sýnir enn og aftur hve mikil þörf er á að endurskoða kvótakerfið með það í huga að treysta atvinnurétt þess fólks sem býr á þessum stöðum að það standi ekki frammi fyrir því að eignir þess séu felldar niður og verðlausar og engin atvinnutækifæri í sjónmáli.