143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Ég skil það þó svo að í raun sé verið að horfa á þá sviðsmynd að hér séu tilteknir fjármunir ætlaðir í verkefnið, lán verði leiðrétt út frá þessum tilteknu fjárhæðum og það sé ástæðan fyrir því að forsendubresturinn sem slíkur er ekki skilgreindur sérstaklega í frumvarpinu, að verið sé að miða við tiltekna verðbólgu umfram viðmiðunarmörk. Það er bara mjög gott að fá það skýrt fram.

Þetta er auðvitað mikið vald sem hæstv. ráðherra er fært þarna með reglugerð, þannig að ég velti fyrir mér því samráði sem haft verður við samningu reglugerðar um viðmiðunarvísitölu, hvernig vinnulagi verður háttað við það.

Síðan langar mig að koma að lánsveðshópnum sem setið hefur eftir. Þessi aðgerð mun ekki koma til móts við þann hóp. Þar liggur fyrir, og hæstv. ráðherra þekkir þá stöðu mjög vel, að reynt hefur verið að ná samkomulagi við lífeyrissjóði um að koma sérstaklega til móts við þann hóp. Hvað verður um þann hóp núna? Á að skilja hann eftir? Er verið að vinna að einhverjum lausnum (Forseti hringir.) fyrir þann hóp samhliða þessu? Ef hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra gæti upplýst okkur um það.