143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra. Hann talar hér ítrekað um vanda fólks sem varð fyrir forsendubresti og því spyr ég: Af hverju er aðgerðin þá ekki bundin við þá sem urðu fyrir forsendubresti? Og í hverju telur hann forsendubrest þess fólks hafa falist sem keypti hús fyrir löngu síðan og það hús hefur hækkað meira í verði en sem nemur hækkun lánsins? Hver er forsendubresturinn þar og hvernig getur hann útskýrt hann?

Hæstv. ráðherra sagði áðan að út af fyrir sig væru góð þau afmörkuðu efnahagsáhrif sem yrðu af aðgerðinni með aukningu einkaneyslu. En þar er Seðlabankinn ekkert sammála hæstv. ráðherra. Seðlabankinn telur, það er rétt að upplýsa ráðherrann um það fyrst hann virðist ekki gera sér grein fyrir því, að slakatímabili í hagkerfinu sé lokið og að þessi aðgerð kalli, vegna þess hversu ómarkviss hún er, óhjákvæmilega á hækkun vaxta, aukna verðbólgu, veikingu gengis og þar með verri afkomu fyrir okkur öll.

Og þá spyr ég í annan stað: Hvernig réttlætir hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, það að rýra kjör skuldlausra heimila í þágu þessara aðgerða með hærri verðbólgu, með hærri vöxtum, með áhrifum á gengi og minni fjárfestingu í landinu, lakari framtíðarhorfum? Hvernig réttlætir hann þetta? Af hverju afmarkar hann sig ekki við forsendubrestinn einan og sér og sleppir því að dreifa peningum til þeirra sem tóku hóflegt lán fyrir húsnæði sem þeir keyptu ódýrt 1996 eða 1997 sem hefur hækkað miklu meira í verði en sem nemur hækkun lánsins? Og af hverju finnst honum eðlilegt að láta þjóðina alla borga kostnaðinn af úrlausn fyrir hóp sem hann getur ekki einu sinni skilgreint sjálfur?