143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vék að því í upphafi máls míns að það er hægt að finna kosti og galla við allar leiðir. Þær leiðir sem fyrri ríkisstjórn fór fólu það meðal annars í sér að allir gátu fengið sérstakar vaxtabætur, svo lengi sem þeir voru ekki með eignir umfram tiltekið viðmið. Það hafði það meðal annars í för með sér að ýmsir sem fyrir löngu síðan keyptu eign fengu mikinn stuðning frá ríkinu í formi vaxtabóta með nákvæmlega sama hætti og hv. þingmaður er að gagnrýna að gerist í þessari aðgerð. Munurinn er sá að í þessu máli er tryggt að stuðningur ríkisins gangi til niðurgreiðslu á höfuðstól lánsins en fyrri ríkisstjórn greiddi vaxtabæturnar út til frjálsrar ráðstöfunar. Það er í raun aðalmunurinn. Í báðum tilvikum er rétt að aðgerðin er ekki einangruð við þá eina sem keyptu sína fyrstu eign og í fyrsta skipti á viðmiðunartímabilinu. Það væri svo sem hægt að gera það en þá tel ég að efnahagslegu áhrifin af aðgerðinni í heild sinni yrðu ekki eins jákvæð.

Veltum aðeins fyrir okkur hvernig fór hjá fólki sem var að stækka við sig á þessum árum þegar svona mörg viðskipti áttu sér stað með fasteignir í landinu. Rétt er að það fólk hefur komið með eitthvað meira af eigin fé inn í viðskiptin þegar það stækkaði við raðhúsið hjá sér, fór kannski úr íbúð í parhús eða raðhús eða hvernig sem það var. En brustu ekki líka forsendur hjá því fólki jafnvel þótt það hefði komið með eitthvert uppsafnað eigið fé úr fyrri fasteignaviðskiptum? Gerðist það ekki líka hjá því fólki að lánið sem tekið var vegna þeirra fasteignakaupa reyndist miklu þyngri byrði en gert hafði verið ráð fyrir? Og var ekki hvatinn til þess að standa í skilum með það lán þegar það var allt í einu orðið 105% af verði eignarinnar? Var hann ekki með sama hætti minni eins og hjá öðrum þeim sem voru nýkomnir inn á markaðinn? Ég held það.

Það er hins vegar alveg gild ábending að fasteignaverðið hefur þróast nokkuð (Forseti hringir.) jákvætt að undanförnu. Það er misjafnt eftir stöðum. Eftir því sem við ætlum að sérsníða lausnirnar meira, þeim mun (Forseti hringir.) flóknari verður útfærslan.