143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:52]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Getur ekki verið að þessi ríki sem hafa verið blessunarlega laus við sveiflur í sínum gjaldmiðli hafi fengið að taka sveifluna út með öðrum hætti? Í Hollandi hefur fasteignaverð lækkað um 20% og atvinnuleysi hefur aukist. Margir hafa misst vinnuna, miklu fleiri en hér, og sömuleiðis hefur orðið fjármagnsflótti á Kýpur þó að þar sé evra.

Getur ekki verið að lausnin sé miklu einfaldari en svo að ganga í myntbandalag evrunnar? Getur ekki bara verið að lausnin sé sú að við sýnum meiri ráðdeild í efnahagsmálum, höfum skynsamlegri peningastefnu og hættum að horfa fram hjá því hvernig bankar auka peningamagn í umferð og rýra þannig íslenska gjaldmiðilinn? Það er það sem hér hefur á bjátað. Eigum við ekki bara að hætta því og reka okkar gjaldmiðil almennilega? Þá þurfum við ekki annarra manna gjaldmiðil í þessu landi.