143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum gengið eftir efndum ríkisstjórnar á kosningaloforðum vegna þess að við í Samfylkingunni teljum ekki eðlilegt að menn geti logið sig til valda og menn eigi að þurfa að standa við skýr kosningaloforð. Þess vegna höfum við gengið eftir því að fá að sjá efndirnar.

Við höfum efnislegar skoðanir á þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir og hún er slæm vegna þess að það er ekki reynt að leiðrétta forsendubrest. Hv. þingmaður spyr um millifærslukerfi og samanburð við vaxtabætur. Í vaxtabótakerfi eru peningar ekki borgaðir til allra jafnt. Þar eru peningar borgaðir á grundvelli tekna, á grundvelli eigna og á grundvelli skulda vegna þess að þeim er ætlað að jafna aðstöðumun og taka sérstaklega til þeirra sem eru í vanda. Það var hægt og hefði verið hægt og væri hægt að útfæra þessa aðgerð hér þannig að hún nýttist þeim sem eru raunverulega með mikla skuldabyrði en það er ekki einu sinni reynt. Þvert á móti er höfuðmarkmið tillagnanna eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan að láta peninga renna til þeirra (Forseti hringir.) sem eru með mjög litla skuldabyrði og (Forseti hringir.) hafa ekki orðið fyrir neinum forsendubresti.