143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:59]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra flutti um helgina á fundi Sjálfstæðisflokksins lofgjörð um aðlögunarhæfni íslensku krónunnar vegna þess að þar með væri hægt að grípa til aðgerða og taka aðlögun út í gegnum hagkerfið. Þetta er afleiðing þess. Það eru fréttir ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar núna að búa til ný millifærslukerfi til að flytja peninga frá einum til annars og setur engin efnisleg viðmið fyrir þeirri millifærslu.

Ég styð millifærslukerfið, hv. þingmaður, vegna þess að ég er jafnaðarmaður en þau millifærslukerfi eiga að hafa það markmið að uppfylla samfélagsleg ásættanleg markmið í þágu þeirra sem raunverulega þurfa á að halda. Hér er verið að leggja fram gríðarlegan félagsmálapakka til fólks sem veit ekki einu sinni hvernig á að stafa orðið forsendubrest, hvað þá annað. Hér er verið að senda peninga til fólks sem aldrei hefur orðið fyrir forsendubresti frá því að það fór fyrst inn á fasteignamarkaðinn t.d. á 10. áratugnum. (Forseti hringir.) Það er höfuðvandamálið í þessari tillögu.