143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það skýrt fram áðan að hv. þingmaður á ekki að koma hingað í andsvar og snúa út úr orðum mínum. Það varð forsendubrestur en hér er aðgerðin ekki takmörkuð við það fólk. Það er líka til fólk sem varð ekki fyrir forsendubresti. Það fólk, svo fremi sem það hafði einhverja skuld á húsinu sínum, fær peninga frá ríkinu og þó svo að húsið hafi hækkað meira í verði en sem nemur hækkun lánsins. Það hefur ekki orðið neitt misvægi þessu fólki í óhag og ég bíð hv. þingmann að útskýra hvað hann á við með orðinu forsendubrestur. Er það öll hækkun lána?

Að því er varðar tekjutöluna þá koma mjög litlar tekjugreiningar með frumvarpinu. Hann nefnir að um 40% fari til fólks með árstekjur undir 6 milljónum. Þar er allt talið, líka námsmenn, lífeyrisþegar og fólk í hlutastörfum. Þetta eru því alls ekki sambærilegar tölur.

Það er líka (Forseti hringir.) hægt að sjá í frumvarpinu að heimili með yfir 12 milljónir í árstekjur eru 15% af niðurfellingunum eða meira en 12 milljarðar. Það vantar alla eignagreininguna. Hversu mikið af þessu fólki er í skuldlausum eignum?