143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Útskýringuna á orðinu forsendubrestur verð ég væntanlega að ræða í ræðu minni seinna í umræðunni. Hv. þingmaður segir að verið sé að senda peninga heim til fólks sem þarf ekki á þeim að halda og nefnir að munurinn á þessari aðgerð og vaxtabótagreiðslum sé sá að ekki eru sendar vaxtabætur jafnt til allra sem á þeim þurfa að halda.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann vill útskýra það gagnvart mynd sem er að finna á bls. 15 í frumvarpinu. Ég skal skilja myndina eftir í púltinu hv. þingmanni til glöggvunar. Þar er fjárhæð niðurfærslu, þ.e. fjöldi heimila og hlutfall í peningagreiðslum, þar sem kemur fram að 0,5–1 milljón kemur í 20% tilfella en dettur síðan alveg niður í 4–5% hjá þeim hópi sem best stendur. Ég spyr hv. þingmann hvernig þetta rímar við það sem hann sagði áðan. Hann getur svo fært mér blaðið þegar hann kemur úr ræðustól.