143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem er vandamálið í þessari aðgerð er að engar eignagreiningar liggja fyrir. Gríðarlegar fjárhæðir fara til hátekjufólks og það er ekki útfært á nokkurn hátt hvað felst í hugtakinu forsendubrestur. Það er vandamálið við aðgerðina. Þær litlu greiningar sem liggja fyrir benda hins vegar til þess að til dæmis fari miklu ríkari hluti til barnlausra fjölskyldna en þeirra sem eru með börn, samt vitum við að það eru barnafjölskyldur sem eiga erfiðast með að láta enda ná saman. Við vitum að þeim sem eiga erfitt með að láta enda ná saman fækkar gríðarlega hratt með vaxandi tekjum, samt dettur fólk aldrei út úr tekjuskalanum í aðgerðinni. Það dettur aldrei út úr eignaskalanum í aðgerðinni. Jafnvel fólk sem á miklar eignir annars staðar, peningalegar eignir, inneignir í bönkum, (Forseti hringir.) fær úrlausn hér. Það er ósköp einfaldlega þannig að þær litlu greiningar sem liggja fyrir í þessu (Forseti hringir.) styðja ekki við það að hér sé skynsamleg ráðstöfun fjármuna fyrir hendi.