143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:06]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðuna. Í ræðu hv. þingmanns talaði hann um að fyrrverandi ríkisstjórn hefði látið meta hvaða upphæð þyrfti að bætast við til þess að koma þeim hópi sem hafði verið út undan í fyrri aðgerðum til aðstoðar, til að leiðrétta þann forsendubrest sem varð á þeirra efnahag. Þar kom fram að sú greining sem þar fór fram hefði verið um 80 milljarðar kr. Þá langar mig að spyrja hann hvers vegna fyrrverandi ríkisstjórn ákvað ekki að hækka bankaskatt, eins og núverandi ríkisstjórn er að gera, til þess að fara út í sambærilegar aðgerðir og verið er að gera núna, að koma til móts við þann hóp sem skilinn var eftir í tíð fyrri ríkisstjórnar?