143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tilvitnuð yfirlýsing þáverandi hæstv. forsætisráðherra byggði á vinnu þar sem allir aðilar komu að borði og meðal annars lýsti forusta Sjálfstæðisflokksins yfir því sama þar og þá um afstöðu til úrvinnslu skuldavanda heimilanna. Það sem síðan gerist, og er stóra breytingin, er gengislánadómurinn 15. febrúar 2012. Hann auðvitað gerði verðtryggt fólk mun lakar sett í samanburði við fólk með gengislán og kallaði á endurmat. Það er í kjölfar hans sem við fórum í það endurmat. Það er á þeim grundvelli sem við töldum að það þyrfti um það bil þessa fjárhæð til að vinna úr málinu.

Það sem ég tek eftir og finnst mjög sárgrætilegt er að þessi ríkisstjórn hefur algjörlega gefist upp á að reyna að skilgreina forsendubrest. Hún ætlar að greiða niður húsnæðisskuldir allra óháð hvort þær eru íþyngjandi eða ekki, óháð því hvort lánið var tekið stuttu fyrir hrun eða fyrir löngu, löngu síðan, óháð því hvort fasteignaverð hefur hækkað meira (Forseti hringir.) en sem nemur hækkun lánsins. Ég get ekki skilgreint forsendubrest öðruvísi en sem misvægi á milli hækkunar láns og hækkunar þess húsnæðis sem lánið var keypt fyrir.