143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað önnur aðferðafræði höfð til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps. Það er ekki verið að horfa á hvern og einn út frá tekjum eða aðstæðum heldur er verið að fara í almennar aðgerðir sem miðast fyrst og fremst við tiltekna niðurfellingu á skuldum óháð því, eins og ég sagði áðan, hvort fólk hafi tök á því að ná endum saman um hver mánaðamót eða ekki. Þess vegna er erfitt að átta sig á því. Vafalaust munu einhverjir fá úrlausn mála sinna með þessari aðgerð. Það er hins vegar ekki svo að hægt sé að segja að hér hafi verið komið til móts við alla þá sem eru í greiðsluvanda. Eins og ég nefndi eru væntanlega margir þeirra sem fengu úrræði á síðasta kjörtímabili enn í vanda, það er eitt af því sem við höfum heyrt. Þarf þá ekki að skoða stöðu þeirra sérstaklega? Þarna er ekki verið að horfa á málið út frá nálguninni að koma í veg fyrir greiðsluvanda heldur er þetta almenn flöt niðurfærsla.

Það kann að vera að þetta komi (Forseti hringir.) til móts við einhverja, og vafalaust gerir það það, en vafalaust ekki alla.