143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek fram að ég vil ekki láta skilja orð mín á þann veg að engin vinna hafi farið fram í því að skoða stöðu á leigumarkaði. Það sem ég kvartaði hér yfir áðan var að við hefðum engar tillögur. Það er gott að þær eru á leiðinni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa um það. Við höfum engar tillögur séð um þau mál né heldur hvort við eigum von á því að opinberum fjármunum verði varið í að styðja við leigumarkað, til að mynda með ódýrara lánsfjármagni til þeirra sem eru að fara inn á félagslegan leigumarkað. Þar hafa auðvitað verið ákveðin sérkjör, en hvort einhverjar sérstakar leiðir séu hugsanlegar í því o.fl.

Ég var aðallega að gagnrýna það áðan að það væri gott að hafa sýn stjórnvalda og ákjósanlegast væri að hún væri þannig að við gætum jafnvel öll sameinast um hana, um framtíðarsýn í húsnæðismálum, hvort sem er á eignamarkaði eða leigumarkaði, á sama tíma og við erum að ræða jafn stóra aðgerð og er í þessu frumvarpi. Sú sýn liggur ekki enn fyrir og mér finnst það ekki gott. Ég hefði talið betra að við gætum rætt þetta í samhengi við þá sýn.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns, um það hvort ég sé almennt á móti því að styðja við tekjuhærri hópa, eða þá sem eru yfir meðaltekjum, er ég það ekki, ekki almennt. Ég vil til að mynda að við séum með heilbrigðiskerfi sem er aðgengilegt fyrir alla, óháð tekjum. Ég vil ekki að þeir sem eru tekjuhærri borgi sig inn í heilbrigðiskerfið eða skólakerfið, svo að dæmi sé tekið. Um það snýst grundvallarhugsjón félagshyggjunnar að hafa styrka innviði fyrir alla, að ekki sé farið í manngreinarálit þar.

En þegar kemur að sértækri aðgerð eins og þessari — og þá nefni ég samanburðinn við vaxtabæturnar, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni hér áðan, þá miðast þær við tekjur. Mér finnst það eðlilegri nálgun ef við ætlum að koma til móts við þá sem þurfa stuðning við að ná endum saman að við horfum á tekjudreifinguna. Þar með er ekki sagt að útiloka eigi hina tekjuhærri, en þar finnst mér eðlilegt að hafa stigvaxandi stuðning eftir því sem tekjurnar eru lægri.