143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú talar hv. þingmaður um að þetta séu sértækar aðgerðir. Ég minnist þess að í fyrri ræðu hv. þingmanns talaði hún um að þetta væri almenn aðgerð og hún væri ósátt við að sú almenna aðgerð gæti nýst þeim sem væru með meðaltekjur eða hærri. Ég skildi hv. þingmann þannig þegar ég hlustaði á ræðu hennar. Ég velti því fyrir mér að ef það prinsipp er við lýði að þeir sem eru með meðaltekjur eða hærri geti ekki fengið neina aðstoð — ég held reyndar að hinar sérstöku vaxtabætur fyrri ríkisstjórnar hafi ekki miðast við tekjur, það heyrði ég hjá fyrrverandi stjórnarliða í umræðunni. Það er kannski aukaatriði.

Það er vandi sem ýmsar þjóðir sem ætla að jafna alla hluti hafa lent í að það hefur hreinlega ekki verið hagur fólks. Fólki hefur hreinlega verið refsað (Forseti hringir.) fyrir að vera með meðaltekjur eða hærri. Ég held að menn ættu að líta til þess, þegar við ræðum þessi mál, áður en þeir tala með þessum hætti.