143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður rakti í ræðu sinni að erfiðleika heimila mætti rekja til hruns fjármálakerfisins. Nú hafði hrun fjármálakerfisins vissulega ákveðin áhrif, en það er auðvitað hrun krónunnar og verðbólga í kjölfar þess sem veldur hinum stóra vanda. Fjármálakerfið hefur ekki oft hrunið eða ekki frá 1930, en það hefur oft áður gerst í íslenskri sögu að verðtryggðar skuldir hafa hækkað í kjölfar verðbólguskots. Í ljósi þessa vil ég spyrja hv. þingmann: Hefur hann ekki áhyggjur af fordæmisgildi þessarar aðgerðar? Hvert er það? Er ekki eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn skilgreini það skýrt? Það var gert í sumar á sumarþinginu með þingsályktunartillögunni, þar var forsendubresturinn skilgreindur. (Forseti hringir.) Nú er skilgreiningin tekin út. Hvaða væntingar er verið að skapa um inngrip ríkisvaldsins í kjölfar gengisfalls krónunnar og hækkunar verðbólgu í framtíðinni?