143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:04]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem sagt, aðgerðin er almenn en ekki altæk. Það er ýmislegt sem verður til af nýju orðfæri hér á þingi. En miðað við þessa upptalningu mína fæ ég ekki séð að hún sé almenn.

Hv. þingmanni hefur verið tíðrætt um prentun bankanna á peningum og því spyr ég: Mér virðist að þessi aðgerð sé sirka peningaprentun sem nemi 5% af landsframleiðslu og líklega 20–25% af peningamagni í umferð. Má ég spyrja: Hvernig má það vera að þessi aðgerð sé hlutlaus með tilliti til verðbólgu og hver er munurinn á henni og þeirri peningaprentun sem átti sér stað fyrir hrun bankanna? Í öðru lagi: Hvert er tjónið þegar laun hækka hjá fólki og íbúðarverð hækkar meira en lánið? Hvert er tjónið? Ég held að ég geti ekki spurt meira, því miður, andsvarið hefur verið stytt svo herfilega.

Ég hef lokið máli mínu.