143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:05]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir margar spurningar og flóknar sem þyrfti meira en eina mínútu til að svara þeim öllum, held ég, svo vel dygði.

Það var áhugaverð spurning hvort þessi aðgerð jafnist í sjálfu sér á við peningaprentun. (VilB: Hún gerir það.) Hv. þingmaður fullyrðir það. (Gripið fram í.) Að þessu var spurt, m.a. var Seðlabankinn spurður út í þetta og hann hefur gert greiningu á þessu. Áhyggjur Seðlabankans lúta ekki að því að þetta sé aukning á peningamagni. Bundið peningamagn sem er núna hjá slitabúum kemst á vissan hátt hugsanlega í umferð, en það kemst aðeins í umferð ef fólk notar það magn til þess að taka ný lán. Að öðru leyti er ekki um neina peningaprentun og enga peningaaukningu að ræða, heldur þvert á móti frekar peningaminnkun. (VilB: En tjónið?)