143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hef nokkrar spurningar. Mig langar fyrst til að skyggnast aðeins betur inn í hugarheim hv. þingmanns um gengismál og krónuna og fá kannski aðeins betri svör frá honum um það, a.m.k. sem ég get skilið betur.

Almenna kenningin sem ég heyri og aðhyllist er sú að hér hafi orðið svokölluð tvíburakreppa, þ.e. hrun fjármálastofnana ásamt hruni gjaldmiðils. Mundi ekki hv. þingmaður taka undir það að hrun gjaldmiðilsins í þessu tvíburasamhengi leiddi til hækkunar á verðtryggðum skuldum heimilanna? Í löndum þar sem fjármálastofnanir hafa hrunið, sem búa við til dæmis sameiginlega mynt á evrusvæðinu, hefur slík hækkun höfuðstóls lána ekki orðið raunin.

Er ekki hv. þingmaður sammála þessari greiningu?