143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurningarnar. Ég held að við verðum að horfast í augu við, og það er mikilvægt að sem flestir geri það, að þetta er ekki almenn aðgerð. Það eru það stórir hópar undanskildir í aðgerðinni að hún er að mínu viti sértæk. Að auki er hún ómarkviss vegna þess að hún leysir ekki vandann sem fyrir hendi er, sem ég held að sé aðallega greiðsluvandi þeirra sem hafa úr litlu að spila.

Síðan er það aginn í opinberum fjármálum. Ég ætlaði að koma að því í ræðu minni áðan og ætla því að nýta tíu sekúndur af þessu andsvari til að benda á það að hæstv. fjármálaráðherra var líka að leggja fram frumvarp um opinber fjármál og þar er hvatt til mjög mikils og beinlínis lögfest að það skuli vera ákveðinn agi í ríkisfjármálum. Mér finnst það vera spurning (Forseti hringir.) hvort þetta þingmál sem við erum að ræða standist kröfur frumvarps um opinber fjármál.