143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gleymdi í fyrra andsvarinu að nefna eitt sem ég tel líka mjög mikilvægt að við þurfum að verja fé í, sem er niðurgreiðsla opinberra skulda, vegna þess að háar opinberar skuldir leiða einfaldlega til vaxtagjalda á hverju ári sem eru allt of háar byrðar.

Hver verða áhrifin? Ég er farinn að halda að það verði verulega líklegt að við verðum kannski eftir 20 ár, ég og hv. þingmaður, einhvers staðar að ræða saman um einhvers konar skuldaleiðréttingu sem verður gripið til þá, kannski í þriðja eða fjórða skipti eftir þrjú eða fjögur verðbólguskot. Á það ekki að vera reglan? Ætlum við ekki alltaf að gera verðbólguskotin upp eftir á, ætlum við ekki alltaf að kalla það forsendubrest og greiða það niður? Er það rétt hagstjórn? Hvaða skilaboð erum við að senda almenningi í landinu, lántakendum?

Best væri að hér risi upp samfélag þar sem frelsi og ábyrgð færu saman. Ég hef stundum notað samlíkingu við veðrið. Íslendingar kunna alveg að ferðast, þeir kunna að klæða sig og við reiðum okkur á það, stjórnvöld, að Íslendingar kunni það. Svo kemur vont veður og þá geta (Forseti hringir.) Íslendingar bjargað sér, flestir, og engin þörf á aðgerðum nema kannski hugsanlega að bjarga einhverjum sem fara sér að voða. (Forseti hringir.) En við förum ekki í almennar aðgerðir og gefum öllum peysu eftir vont veður. (Forseti hringir.) Það ríkir frelsi og ábyrgð og sama þjóðfélag verður að rísa upp hvað varðar fjármál og efnahagsmál.