143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða forgangsröðun og ég hafna því að það sé aðeins ein leið til að koma til móts við íslensk heimili og stunda pólitík, sem hyglir heimilum, og að þeir sem séu á móti þeirri leið séu þar með þeirrar skoðunar að ekkert eigi að gera fyrir heimilin.

Mér er tíðrætt um nauðsyn þess að koma á meiri stöðugleika í íslensku samfélagi. Mér sýnist ríkisstjórnin ekki vera að stefna að því með þessum aðgerðum og þær verða því étnar upp af verðbólgu á nokkrum árum. Mér finnst það áhyggjuefni. Þess vegna tel ég þetta vondar hugmyndir.

Er aðgerðin almenn? Það er sagt: Snertir á einn eða annan hátt 80% heimila. Orðalagið „snertir á einn eða annan hátt“ er auðvitað eitthvað sem maður verður að fara í saumana á. Hvernig snertir það heimilin? Kemur það þeim til gagns? Mundu aðrar aðgerðir koma meira til gagns en þetta „á einn eða annan hátt“ sem það snertir heimilin? (Forseti hringir.) Ég vona að hv. þingmaður hafi líka hitt leigjendur í tali sínu fyrir kosningar.