143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:43]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði í ræðu sinni þá hefur hann hitt marga að máli og rætt um skuldaáform og aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Og alveg eins og hv. þingmaður hitti ég marga. Ég hitti kennara og hjúkrunarfræðinga, verkafólk og iðnaðarmenn t.d., ef við ætlum að fara að flokka fólkið. Allir þeir sem ég hef átt tal við hafa barist í bökkum frá hruni, ekki fengið neinar leiðréttingar og bara bætt við sig vinnu hér heima og erlendis til þess að ná endum saman.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé á móti því að 60% af þessari aðgerð fari til heimila sem hafa tæpar 700 þúsund í heildarmánaðartekjur.