143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn og aftur vil ég leggja ríka áherslu á að í afstöðu okkar í Bjartri framtíð til þessara tillagna um að nota opinbert fé felst ekki sú afstaða að ekkert eigi að gera fyrir það fólk sem hv. þingmaður lýsir. Við aðhyllumst einfaldlega allt aðrar áherslur. Hv. þingmaður aðhyllist einhvers konar leiðréttingar á forsendubresti án þess að forsendubresturinn sé skilgreindur neitt sérstaklega. Við aðhyllumst það að leiðrétta forsendurnar sjálfar til langs tíma.

Ég held að það sem raunverulega mundi hjálpa því fólki sem hv. þingmaður lýsir, og ég hitti líka, væri samfélag þar sem væri hægt að stytta vinnutíma, þar sem væri hægt að auka framleiðni, þar sem væri hægt að búa við stöðugt verðlag og forsendur til kjarabóta, þar sem væri hægt að bjóða upp á fjölbreytt atvinnulíf, (Forseti hringir.) alþjóðlegt atvinnulíf. Þetta eru áherslurnar.

Þá peninga sem á að nota í þessar aðgerðir er hægt að nota (Forseti hringir.) til að vinna að þeim markmiðum.