143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið.

Mig langar að heyra hjá hv. þingmanni hvort hann telji að þessar aðgerðir hafi áhrif á einkaneyslu í landinu. Nú hefur það komið fram að þeir fjármunir sem eru nýttir með þessum hætti, skattfé ríkisins, til að greiða inn á höfuðstól lána fer að stórum hluta til þeirra sem þurfa í raun ekki á þeim peningum að halda og eru ekki í greiðsluvanda. En vissulega skapar það svigrúm til að fara út í meiri einkaneyslu en annars hefði verið. Telur hv. þingmaður að þetta geti valdið því að einkaneysla aukist, verðbólga aukist og þessir fjármunir brenni upp í verðbólguskoti, og þegar upp er staðið sé þetta aðgerð sem fuðri bara upp á kannski næstu tveim árum?