143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það er athyglisvert að hann hefur sérhæft sig svolítið í kosningaloforðum. Ég get verið sammála honum um að mér finnst skipta miklu máli að skoða hvað menn sögðu og hvað var staðið við. Ég get bætt því við það sem hv. þingmaður sagði í þættinum Forystusætið þar sem hæstv. forsætisráðherra var í viðtali að þegar hann var spurður um 300 milljarðana sagðist hann geta ábyrgst að þeir fjármunir yrðu nýttir til að koma til móts við heimilin og síðar þegar hann var inntur eftir hvort sú tala stæðist sagði hann: Upphæðir á borð við þær sem þú nefnir, og jafnvel hærri, munu nást fram.

Það sem ég ætlaði að spyrja um var um annað sem mér finnst hafa tekið sérkennilegum breytingum. Þegar rætt var um forsendubrestinn og hvernig ætti að leiðrétta hann töluðu menn um að miða ætti við efri vikmörk Seðlabankans, þ.e. þegar við erum að setja verðbólgumarkmið er talað um 2,5%, efri vikmörk eru 4%. Síðan dúkkar allt í einu upp talan 4,8% þar sem er tekið meðaltal vísitölu fyrir ákveðið tímabil. Nú er það algerlega dottið út og forsendubresturinn er ekki lengdur skilgreindur heldur kastað í reglugerð og á síðan að ráðast af fjölda umsókna.

Mig langar að heyra athugasemdir eða vangaveltur hv. þingmanns um þetta atriði og hins vegar um tímasetningar. Við erum að ræða að hægt verði að sækja um frá 15. maí og við gerum ráð fyrir að þessari umræðu ljúki á morgun, málið fari til nefndar og fái eins vandaða umfjöllun og hægt er en fljótan framgang. Er raunhæft eftir sem áður að það náist að hægt verði að byrja að sækja um 15. maí? Og síðan gerist ekkert þangað til 1. september, það fara þrír mánuðir í umsóknir. Hvenær má vænta þess að menn sjái þessar leiðréttingar? Mig langar til að heyra skoðun hv. þingmanns á því.